Skip to main content

Um Borgarplast

Borgarplast hf var stofnað í Borgarnesi árið 1971 með uppsetningu EPS einangrunarverksmiðju. Rætur félagsins liggja þó lengra aftur en árið 2018 var félagið sameinað Plastgerð Suðurnesja en það félagið var stofnað var árið 1965. Plastgerð Suðurnesja framleiddi umbúðir undir fersk matvæli og EPS einangrun allt þar til það sameinaðist Borgarplast. Árið 1983 var hverfimótunardeild félagsins stofnuð í Kópavogi. Á árinu 2008 voru verksmiðjurnar í Borgarnesi og Seltjarnarnesi sameinaðar á sömu lóð að Völuteig 31 og 31A í Mosfellsbæ. Árið 2019 var svo öll EPS framleiðsla félagsins sameinuð undir einu þaki í endurbættu 4.700 fermetra húsnæði á Ásbrú í Reykjanesbæ í framhaldi af sameiningu Borgarplast og Plastgerð Suðurnesja. Hjá fyrirtækinu starfa um 40 manns, eftir verkefnastöðu hverju sinni..

Framleiðslulína Borgarplasts samanstendur af vörum framleiddum úr Polystyrene (EPS) og Polyethylene (PE) að mestu til nota í matvæla-og byggingariðnaði. EPS og PE eru vörur sem eru að fullu endurvinnanlegar og þar sem félagið framleiðir að mestu vörur sem seldar eru til annarra fyrirtækja eða eftir atvikum er ætlað að endast í áratugi er ekki um að ræða hefðbundna neytendaplastvöru sem erfitt er að koma til endurvinnslu eftir að líftíma vörunnar lýkur. Um áratugabil hefur Borgarplast verið leiðandi framleiðandi á vörum sem ætlaðar eru til þess að hreinsa frárennsli frá fyrirtækjum og heimilum, s.s. rotþrær, olíuskiljur og fituskiljur og hefur félagið þannig alla sína tíð lagt sitt á vogaskálarnar í umhverfisvernd og þjónustu við fyrirtæki sem þurfa að uppfylla lög og reglugerðir um hollustuhætti.

Borgarplast er stærsti söluaðili einangraðra fiskikerja á Íslandi. Árleg framleiðslugeta hverfismótunardeildar fyrirtækisins samsvarar framleiðslu á 75.000 einangruðum kerum auk þess sem framleiðslugeta félagsins í umbúðum fyrir ferskan fisk og einangrun er umtalsverð.

Ásamt því að framleiða vörur fyrir íslenskan markað er Borgarplast umfangsmikið útflutningsfyrirtæki. Félagið selur fiskiker til allra heimsálfa og hefur gert frá árinu 1986. Fiskiker félagsins eru þekkt fyrir gæði og góða endingu og hefur félagið stóran hóp viðskiptavina á erlendri grundu sem hafa fylgt félaginu í áraraðir.