fbpx Skip to main content

Samstarf Sorpu og Borgarplasts um endurnýtingu á frauðplasti

Borgarplast var stofnað árið 1971 og í upphafi var eingöngu framleitt frauðplast í verksmiðju fyrirtækisins. Heilmikil vöruþróun hefur átt sér stað í gegnum tíðina og í dag starfrækjum við bæði verksmiðju sem framleiðir hverfisteyptar vörur úr plasti og aðra sem framleiðir vörur úr frauðplasti. Borgarplast hefur því framleitt frauðplast við góðan orðstír í yfir 50 ár.

Sem fyrirtæki í plastiðnaði höfum við í gegnum tíðina verið meðvituð um umhverfisáhrif og lagt okkar á vogarskálarnar til að vega upp á móti því fótspori sem við sem framleiðslufyrirtæki skiljum eftir okkur. Eitt af því sem við getum gert til að draga úr umhverfisáhrifum okkar er að endurnýta hráefni sem til fellur hér á landi og nýta það aftur í þær vörur sem nota má endurunnið frauðplast í.

Við hófum nýverið samstarf við Sorpu um að taka á móti frauðplasti sem skilað er á endurvinnslustöðvar þeirra og við getum gefið nýtt líf, til dæmis sem einangrunarplast fyrir húsbyggingar. Mest af því sem við fáum frá Sorpu til endurvinnslu er frauðplast sem sjónvörp og fleiri heimilistæki eru flutt í til landsins. Þegar tækin eru tekin úr kössunum fara flestir með einangrunarplastið til Sorpu og þaðan kemur það til okkar í Borgarplasti. Hjá okkur er efnið hreinsað, kurlað og steypt aftur í stóra kubba sem eru síðan skornir niður og notaðir í húsaeinangrun. Þannig náum við að endurnýta frauðplast sem til fellur hér á landi og það er svo nýtt til húseinangrunar þar sem það veitir einangrun og sparar orku  til framtíðar.

Hér að neðan má sjá stutt myndband sem sýnir ferilinn frá því plastið kemur til Sorpu og þangað til það kemur til okkar.