Skip to main content

Matthías Matthíasson, framkvæmdastjóri Borgarplasts, segir að umhverfisáhrif ólíkra gerða plastkerja verði að skoða með tilliti til alls notkunartíma þeirra.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Þann 28. ágúst 2021 birtist í 200 mílum, sérblaði Morgunblaðsins, grein um Borgarplast og svo í vefútgáfu mbl.is hér.
Ásgeir Ingvarsson skrifaði greinina. Birt með leyfi útgefanda.

Matth­ías Matth­ías­son tók ný­verið við sem fram­kvæmda­stjóri hjá Borgarplasti og verður gam­an að fylgj­ast með hvert hann leiðir fé­lagið. Matth­ías býr yfir mik­illi reynslu af sölu og þjón­ustu við sjáv­ar­út­veg­inn en hann var áður fram­kvæmda­stjóri flutn­inga­sviðs Eim­skips og fór þar áður fyr­ir starf­semi Kom­atsu í Dan­mörku.

Spurður hvort rót­tækra breyt­inga sé að vænta kveðst Matth­ías ætla að halda óbreytti stefnu að svo stöddu. „Við höld­um áfram að byggja á þeim sterka grunni sem lagður hef­ur verið af fyrri stjórn­end­um á þeim fimm­tíu árum sem liðin eru frá stofn­un Borgarplasts,“ seg­ir hann.

Ef ekki væri fyr­ir ker­in væri ís­lensk­ur sjáv­ar­út­veg­ur stadd­ur á allt öðrum stað í dag hvað varðar af­köst og gæði. mbl.is/​Eggert Jó­hann­es­son

Fyr­ir­tækið hef­ur þró­ast jöfn­um skref­um og látið að sér kveða bæði á inn­lend­um og er­lend­um mörkuðum. Starf­sem­in hef­ur í gegn­um tíðina að mestu byggst upp í kring­um þjón­ustu við ís­lensk­an sjáv­ar­út­veg og þróun á hag­kvæm­um og góðum umbúðalausn­um fyr­ir sjáv­ar­af­urðir, að sögn Matth­ías­ar „Und­ir­staðan er fram­leiðsla á kerj­um til notk­un­ar í sjáv­ar­út­vegi en með samrun­an­um við Plast­gerð Suður­nesja árið 2018 bætt­ust frauðplast­kass­ar fyr­ir fersk­an fisk og hús­eingr­un við vöru­fram­boðið.“

Matth­ías seg­ir einkar brýnt að huga vel að þörf­um sjáv­ar­út­vegs­ins sem reiði sig á sterk­byggð, létt og end­ing­argóð ker. Hann seg­ir að líkja megi kerja­væðingu ís­lensks sjáv­ar­út­vegs á sín­um tíma við gáma­væðingu skipa­flutn­inga því plast­kerið var risa­stökk í meðhöndl­un sjáv­ar­fangs frá því sem áður var. „Eins og rauðu blóðkorn­in sem flytja súr­efni um lík­amann flytja ker­in sjáv­ar­af­urðir í lokuðu hringrás­ar­kerfi frá veiðum til vinnslu og á markað, og jafn­vel til kaup­enda úti í heimi. Hönn­un kerj­anna ein­fald­ar flutn­inga og veit­ir góða hita­ein­angr­un svo var­an skil­ar sér til viðtak­anda í eins góðu ástandi og mögu­legt er,“ seg­ir hann. „Ekki má held­ur gleyma því að öll sú þró­un­ar­vinna sem hef­ur átt sér stað við hönn­un­ina nýt­ist í dag fyr­ir ým­is­legt fleira en sjáv­ar­af­urðir, svo sem við geymslu og flutn­ing á mjólk­ur- og kjötaf­urðum.“

Þarf að skoða líf­tíma kers­ins

Matth­ías und­ir­strik­ar að Borgarplast leggi mikla áherslu á að um­gang­ast nátt­úr­una af virðingu, og gæti þess að end­ur­vinna allt sem fell­ur til í fram­leiðslunni. „Þá höf­um við einnig markað okk­ur sjálf­bærni­stefnu þar sem mark­mið okk­ar er að rekst­ur­inn sé til fyr­ir­mynd­ar út frá viður­kennd­um viðmiðum um um­hverf­is­mál ásamt því að leggja áherslu á að inn­leiða hug­mynda­fræði hringrás­ar­hag­kerf­is­ins.“ Seg­ir Matth­ías plast búa yfir ein­stök­um eig­in­leik­um og vand­séð að önn­ur efni geti komið al­farið í staðinn en miklu skipti að um­gang­ast plastið rétt og farga því eða end­ur­vinna með rétt­um hætti. Í til­viki kerja und­ir sjáv­ar­af­urðir verði að taka með í reikn­ing­inn þau um­hverf­isáhrif sem hljót­ast af notk­un kers­ins yfir líf­tíma þess:

„Það er ekki óal­gengt að fiskiker end­ist í fimmtán ár enda er vandað til við hönn­un þeirra og fram­leiðslu. Gerðar hafa verið áhuga­verðar til­raun­ir með fram­leiðslu kerja þar sem bæði ein­angr­un og skel kerj­anna er úr sama plastefn­inu sem auðveld­ar end­ur­vinnslu en þau ker hafa þann ókost að vera tölu­vert þyngri sem svo aft­ur get­ur gert störf sjó­manna um borð í skip­um erfiðari, aukið slysa­hættu og hækkað flutn­ings­kostnað þar sem meira eldsneyti þarf til að flytja viðbót­arþyngd­ina í kerj­un­um,“ seg­ir Matth­ías. „Það er meiri áskor­un að end­ur­vinna ker sem steypt er úr tveim­ur ólík­um plast­teg­und­um, en slíkt ker er ekki endi­lega verra fyr­ir um­hverfið.“

Rotþrær, ol­íu­skilj­ur og frá­veiturör eru mik­il­væg­ur hluti af starf­sem­inni og m.a. fram­leidd úr end­ur­nýtt­um plastaf­göng­um sem verða til við kerja­fram­leiðsluna. mbl.is/​Krist­inn Magnús­son

Að því sögðu bend­ir Matth­ías á að hjá Borgarplasti sé allt plast end­urunnið eins og frek­ast er unnt og eru t.d. af­gang­ar sem falla til þegar fiskiker eru steypt sett­ir í sér­staka kurlun­ar­vél og síðan nýtt­ir til annarr­ar fram­leiðslu, t.d. í rotþrær, ol­íu­skilj­ur og frá­veitu­vör­ur sem er ann­ar mik­il­væg­ur þátt­ur í starf­semi fyr­ir­tæk­is­ins.

Matth­ías bæt­ir við að það sé út­breidd­ur mis­skiln­ing­ur að frauðplast­kass­ar séu ekki end­ur­vinn­an­leg­ir en eins og alltaf hvíli það á enda­not­and­an­um að um­gang­ast vör­una rétt og koma henni í hend­ur aðila sem hafa rétta búnaðinn og þekk­ing­una til að end­ur­vinna hrá­efnið. „Við end­ur­vinn­um allt frauðplast sem til fell­ur við okk­ar frauðplast­fram­leiðslu og nýt­um það í fram­leiðslu á hús­ein­angr­un. Þá höf­um við einnig lagt okk­ar af mörk­um með því að taka við frauðplasti til end­ur­vinnslu frá stóru ís­lensku tölvuþjón­ustu­fyr­ir­tæki þar sem dag­lega fell­ur til mikið af frauðplasti utan af tölvu­búnaði.“

Frauðplastið ver verðmæti

Matth­ías seg­ir áhuga­vert og mik­il­vægt að fylgj­ast vel með þró­un­inni í umbúðalausn­um fyr­ir sjáv­ar­af­urðirn­ar en það ger­ist best í nánu sam­starfi við alla hags­munaaðila. Enn hafi ekki komið fram á sjón­ar­sviðið val­kost­ur sem geti keppt við frauðplastið hvað varðar styrk, vatnsþéttni og ein­angr­un­ar­getu. „Hafa þarf hug­fast að frauðplast­kass­ar eru notaðir til að verja dýr­mæt mat­væli og tryggja bæði að hrá­efni fari ekki til spill­is og að gæðaorðspor fram­leiðand­ans skaðist ekki. Það mætti, ef því er að skipta, flytja fersk­an fisk á milli landa í pappa­köss­um svo lengi sem fisk­ur­inn er í hita­stýrðu um­hverfi frá upp­hafi til enda ferðar­inn­ar, en því miður geta flutn­ingskeðjur sjáv­ar­út­vegs­ins verið bæði lang­ar og flókn­ar og um leið og bretti af fiski er tekið út úr kæligámi eða lest flug­vél­ar og látið standa við 20 gráðu hita í ein­hvern tíma byrj­ar hrá­efnið fljótt að skemm­ast ef ein­angr­un­ar frauðplasts­ins nýt­ur ekki við.“