Matthías Matthíasson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Borgarplasts.
Í tilkynningu segir að með ráðningunni sé stefnt að því að byggja ofan á þær traustu stoðir sem Guðbrandur Sigurðsson, fráfarandi framkvæmdastjóri, hafi lagt grunninn að.
Einnig segir að nýr framkvæmdastjóri muni leggja sérstaka áherslu á sölu og útflutning en Matthías búi yfir mikilli reynslu á því sviði. Á árunum 2009-2020 starfaði hann sem framkvæmdastjóri flutningasviðs hjá Eimskip.
Á árunum 2004-2009 var hann framkvæmdastjóri Komatsu í Danmörku og þar áður starfaði hann sem framkvæmdastjóri Eimskips í Englandi.
Borgarplast framleiðir fiskikör og frauðkassa fyrir ferskan fisk, frauðeinangrun og ýmsar fráveitulausnir á borð við brunna, olíuskiljur og rotþrær. Í Mosfellsbæ rekur Borgarplast hverfisteypu fyrir fiskikör og er stærsti söluaðili einangraðra fiskikara á Íslandi ásamt því að selja fiskikör til allra heimsálfa. Í Reykjanesbæ starfrækir fyrirtækið frauðverksmiðju með umtalsverða framleiðslugetu.