Skip to main content
Nýr fjármálastjóri Borgarplasts

Andrés Helgi Hallgrímsson nýr fjármálastjóri Borgarplasts

Andrés Helgi Hallgrímsson hefur verið ráðinn fjármálastjóri Borgarplasts og tekur hann við af Ernu Eiríksdóttur. Andrés starfaði áður sem sölustjóri sjávarútvegslausna hjá Wise í tæp 6 ár.  Hann hefur viðtæka reynslu af fjármálum, rekstri og ráðgjöf og hefur verið fjármálstjóri og framkvæmdastjóri hjá ýmsum fyrirtækjum. Hann starfaði meðal annar sem framkvæmdastjóri hjá Omnis, Cintamani, Múlakaffi og A4.  Hann var áður fjármálstjóri Kraftvéla og KFD AS dótturfélags Kraftvéla sem var umboðsaðili Komatsu í Danmörku. Andrés er viðskiptafræðingur af endurskoðunarsviði frá Háskóla Íslands. Andrés er kvæntur Snædísi Kristinsdóttur og saman eiga þau þrjú börn.

“Það er mikill styrkur fyrir okkur að fá Andrés til liðs við Borgarplast. Hann hefur ekki aðeins gríðarlega reynslu af rekstri fyrirtækja sem fjármálastjóri heldur hefur hann einnig starfað sem framkvæmdastjóri og þekkir rekstur fyrirtækja mjög vel. Framtíðin er björt hjá Borgarplasti og góður hópur starfsmanna tilbúin að takast á við þau tækifæri sem eru fram undan í okkar rekstri.” – Matthías Matthíasson, framkvæmdastjóri Borgarplasts

Borgarplast var stofnað í Borgarnesi árið 1971 og fhefur því verið leiðandi á sínu sviði í 51 ár.

Borgarplast framleiðir fiskiker, frauðkassa fyrir ferskan fisk, húseinangrun og ýmsar fráveitulausnir á borð við olíuskiljur, brunna og rotþrær. Í Mosfellsbæ rekur Borgarplast hverfisteypu fyrir fráveitulausnir og fiskiker. Borgarplast er stærsti söluaðili einangraðra fiskikerja á Íslandi ásamt því að selja fiskiker til allra heimsálfa. Í Reykjanesbæ starfrækir fyrirtækið frauðverksmiðju.

Borgarplast leggur áherslu á að nota endurvinnanleg hráefni og hefur verið leiðandi framleiðandi á vörum sem ætlaðar eru til hreinsunar á frárennsli frá fyrirtækjum og heimilum. Félagið hefur þannig alla sína tíð lagt sitt á vogaskálarnar í umhverfisvernd og þjónustu við fyrirtæki sem þurfa að uppfylla lög og reglugerðir um hreinlæti og umhverfisvernd.