fbpx Skip to main content

Umræðan um plastmengun hefur verið hávær undanfarin ár og við sem störfum hjá Borgarplasti höfum ekki farið varhluta af því. Við erum ítrekað spurð af vinum og ættingjum hvort okkar bransi sé ekki mengandi og þá erum við einnig spurð að því hvernig sé að vinna hjá fyrirtæki í plastiðnaði. Við viljum með þessari grein aðeins ítreka þau svör sem við gefum við þessum spurningum.

Borgarplast – Íslenskt fyrirtæki í yfir hálfa öld

Borgarplast var stofnað árið 1971 og rekur tvær verksmiðjur á Íslandi. Borgarplast hefur verið rekið á sömu kennitölu frá stofnun eða í rúmt 51 ár og hefur fengið margvíslegar viðurkenningar fyrir umhverfisvernd. Í verksmiðjunni okkar að Völuteig 31 í Mosfellsbæ framleiðum við hinar ýmsu vörur úr Polyethylene (PE)  sem er sterkt og endingargott plastefni.

Olíuskilja í smíðum

Við framleiðum sem dæmi olíuskiljur sem nú eru skylda að hafa við öll atvinnu og iðnaðarsvæði. Olíuskilja er grafin í jörð og tekur við affallsvatni sem mögulega er smitað af olíu af einhverju tagi. Ef við tökum dæmi af stóru bílastæði er líklegt að það leki olía úr bílum sem þar leggja. Þegar rignir blandast olían við rigningarvatn sem fellur á bílastæðið og fer í niðurfallið á bílastæðinu. Olíublandað vatnið fer svo í olíuskiljuna og flýtur ofan á vatninu. Vatnið fer síðan í gegnum ferli í olíuskiljunni og er skilið frá olíunni sem verður eftir í skiljunni en hreint vatn rennur svo úr skiljunni og áfram í fráveitukerfið og þaðan út í umhverfið. Svo er vöktunarbúnaður í skiljunni sem lætur vita þegar skiljan er full, olíunni er þá dælt upp og fargað á umhverfisvænan hátt.

Við framleiðum líka rotþrær, fitu- og sandskiljur ásamt ýmsum öðrum  fráveituvörum. Það sem PE hefur fram yfir mörg önnur efni er hversu létt það er en á sama tíma sterkt og endingargott. Svona tankar endast í tugi, ef ekki hundruð ára og menga ekki út frá sér og það hversu léttir þeir eru miðað við önnur efni hefur margvíslega umhverfisvæna kosti í för með sér.

Endurunnið plastduft kemur úr vélinni

Fyrr á þessu ári tókum við í notkun vél sem malar niður allan  afskurð sem fellur til við framleiðsluna hjá okkur. Vélin malar efnið niður í duft sem við notum síðan til að framleiða vörurnar okkar. Undanfarið höfum við notað endurunna efnið í hinar ýmsu vörur með mjög góðum árangri. Við höfum til dæmis notað afskurð af heitum pottum til að steypa fiskiker sem við höfum  selt sem kalda potta.

Það sem við fáum út úr þessu er að við þurfum að flytja inn minna magn af hráefni og þannig dregið úr innflutningi plasts. Við höfum líka dregið verulega úr úrgangi frá verksmiðjunni okkar og förgun á afgangs plastefni. Með þessum hætti framleiðum við umhverfisvænni vörur.

Hér má sjá myndband sem sýnir ferlið: https://youtu.be/gMURE93dbNw 

Frauðplast

Í verksmiðju okkar að Ásbrú í Reykjanesbæ framleiðum við kassa og einangrun úr Expandable polystyrene (EPS) sem flestir þekkja sem frauðplast. Kassarnir eru notaðir til að halda kælingu á ferskum fiski sem fluttur er úr landi hvort sem er með flugi eða skipum. Íslenskar sjávarafurðir eru mjög mikilvæg útflutningsvara sem er þekkt víða um heim sem gæðavara og vegna þessa eru frauðkassarnir besta lausnin við að halda ferskleika og gæðum sjávarafurða við útflutning. Kolefnisfótspor þess að fiskur skemmist í flutningi er umtalsvert meira en framleiðslan á kössunum en þeir fara svo í endurvinnslu erlendis þegar búið er að nota þá við flutning.

Einangrunin er svo notuð í húsabyggingar til að halda hita á húsum Íslendinga og sparar þannig orkunotkun við að hita upp hús um vetur og í köldum veðrum. Borgarplast er í samstarfi við Sorpu um að taka á móti og endurnýta EPS sem skilað er til Sorpu. Sem dæmi þegar keypt er ný þvottavél eða nýtt sjónvarp þá er vörunum oftar en ekki pakkað í EPS til að verja vörurnar hnjaski. Almenningur skilar svo þessu EPS til Sorpu og við sækjum það þangað, kurlum það niður í þar til gerðri vél og notum að hluta til í einangrunarplast. Þannig að innflutt EPS er endurnýtt og komið fyrir í veggjum, loftum og gólfplötum húsa á Íslandi. Þannig náum við að viðhalda hringrásarhagkerfinu og plastið er bundið í húsunum í tugi eða hundruð ára. Hægt er að skoða myndband sem gert var um þetta ferli á Youtube með því að smella hér: https://www.youtube.com/watch?v=ZS-MdISkPWc

Umhverfisvernd er maraþon

Við gerum því allt sem við getum til að huga að umhverfinu og þó við séum að framleiða vörur út plasti þá erum við ávallt að huga að umhverfinu og leggja okkar af mörkum við að gera það á sem umhverfisvænastan hátt og huga að hringrásarhagkerfinu. Umhverfisvernd er stöðug barátta en í þessu gerir margt smátt eitt stórt. Við erum stolt af því að starfa hjá fyrirtæki sem er umhugað um umhverfið og svörum öllum svona spurningum með bros á vör.