Skip to main content

Breytingar á eignarhaldi Borgarplasts

Eftir ágúst 15, 2023ágúst 30th, 2023Fréttir

Borgarplast var stofnað árið 1971. Fyrstu framleiðsluvörur fyrirtækisins voru frauðplast einangrun en skömmu síðar var hverfisteypudeild stofnuð og voru fyrstu framleiðsluvörurnar plastbrúsar. Síðan þá hefur mikil þróun átt sér stað innan fyrirtækisins og framleiðsluvörum fjölgað.

Árið 2018 urðu breytingar á eignarhaldi þegar Guðni Þórðarson, einn stofnenda og aðaleigandi félagsins seldi fyrirtækið til framtakssjóðsins Alfa Framtak. Borgarplast sameinaðist þá Plastgerð Suðurnesja og var öll frauðplastframleiðsla færð á Ásbrú í Reykjanesbæ en hverfisteypuverksmiðjan var áfram í Mosfellsbæ.

Nú í sumar 2023 urðu svo aftur breytingar á eignarhaldinu þegar Umbúðamiðlun keypti hverfisteypuverksmiðjuna ásamt nafninu Borgarplast. Frauðplastdeildin varð eftir í eigu framtakssjóðsins en verður hér eftir rekin undir nafninu Formar og verður verksmiðjan áfram að Ásbrú í Reykjanesbæ. Pöntunarsíminn fyrir frauðplastið verður ennþá sá sami, 561 2210.

Umbúðamiðlun tekur nú við hverfisteypudeild Borgarplasts og eru spennandi tímar framundan hjá Borgarplasti. Umbúðamiðlun var stofnað árið 1996 og er tilgangur félagsins rekstur og miðlun umbúða og ýmis þjónusta við fiskmarkaði, kaupendur, seljendur og aðra aðila. Umbúðamiðlun hefur frá stofnun félagsins notað fiskiker frá Borgarplasti í sínum leigurekstri og í dag eru um 60.000 fiskiker í leigukerfi félagsins.

Nýjir eigendur Borgarplasts munu áfram viðhalda þeim gæðakröfum sem hafa verið við lýði hjá Borgarplasti frá stofnun og halda áfram að veita viðskiptavinum félagsins framúrskarandi þjónustu. Framtíðarstefna Borgarplasts er að verða leiðandi í vöruþróun og nýsköpun á sviði hverfisteypu.

Skrifstofur, afgreiðsla og framleiðsla mun áfram vera að Völuteig 31 í Mosfellsbæ, símanúmerið verður það sama 561 2211 og netfangið verður áfram borgarplast[hjá]borgarplast.is og Marcelo Aubert og Kristján Benediktsson munu áfram bjóða viðskiptavini velkomna og sinna fyrirspurnum og pöntunum.

Við starfsfólk Borgarplasts og Umbúðamiðlunar hlökkum til að eiga áfram ánægjuleg samskipti við viðskiptavini okkar og minnum á að það er alltaf heitt á könnunni hjá Borgarplasti að Völuteig 31 í Mosfellsbæ.